Erum við á réttri leið?

Þessi greinarstúfur er ekki markviss - meira úr einu í annað, hugleiðingar og samanburður - þá og nú og þar og hér.

Ég hef oft hugleitt hvað hefði orðið ef Íslendingar hefðu gert eins og Norðmenn og tryggt þjóðareign (raunverulega þjóðareign) á auðlindum landsins.

Norðmenn fóru að vinna olíu í kring um 1970. Nú um 50 árum síðar á Noregur um 11 þúsund milljarða norskra króna í sparisjóði.

Um 1970 voru íslendingar búnir klára síldina og þorskstofninn í hættu vegna ofveiði. Það var ekkert til í sparisjóði þá, og heldur ekki nú um 50 árum síðar. Oljepenger Norge

Norðmenn ákváðu að olían væri raunveruleg þjóðareign og ágóðinn því settur í raunverulegan þjóðarsjóð. Þessi ríkisrekni sjóður hefur ekki staðið í vegir fyrir þróun atvinnuvega, þvert á móti hefur starfsemi í olíugeiranum orðið til þess að Norskur iðnaður er á heimsmælikvarða á mörgum sviðum. Á sínum tíma lögðu lærisveinar frjálshyggjunnar til að norska ríkið seldi olíuvinnsluna alþjóðlegum auðhringum, sem áttu auðvitað að kunna allt best. Ríkiseign væri ávísun á lélegt gengi var sagt. Annað varð raunin. Noregur tók stakkaskiptum þrátt fyrir að stærsta auðlindin væri í ríkiseign, eða einmitt þess vegna.

Noregur er dæmi um að þjóðareign skapi grundvöll velmegunar.

Ísland hefur alltaf glatað tækifærum. Allur sá auður sem fiskveiðar hafa skapað er ekki þjóðarauður á Íslandi, það er lítið sem ekkert eftir.

Gæfa íslendinga er tvíþætt, annars vegar eru ótrúlega gjöfular náttúruauðlindir og hins vegna er fámenni. Hvort tveggja samt tvíeggjað. Auðlindir eru vandmeðfarnar og auðvelt að sækja of stíft og eyðileggja og fámennið skapar miklar takmarkanir.

Ég hef stundum sagt að íslenskt samfélag mótaðist af veiðimennsku, eftir að það komst út úr frumstæðum torfkofalandbúnaði. Veiðimannasamfélagið einkennist af stöðugri sókn í auðlindina til þess að bæta kjörin, í stað þess að fullvinna og auka verðmæti afurðanna. Lengst af var aðalatriðið að sækja sem mest og meira og selja sem hráefni. Árum saman beið fólk í landinu eftir að sendinefndin frá Síldarútvegsnefnd sendi skeyti frá Moskvu um hve margar tunnur af síld rússar vildu kaupa. Frægar voru greinar Einars Olgeirssonar o.fl. um lýsið. Hann og sósíalistarnir vildu að lýsið yrði hert (unnin afurð) á Íslandi, en ekki flutt út sem algert hráefni. Það hefði aukið verðmætið verulega. Lýsishersluverksmiðja reis aldrei! Íslenskt atvinnulíf hefur aldrei verið sátt við menntun og þróun sem leiðir af menntun. Lengst af var menntun óþarfi og dund sérvitringa í augum athafnamanna. Þetta kom svo bersýnilega í ljós í hrundansinum. Meira að segja forsetinn sjálfur, prófessorinn, dásamaði víkingaeðli útrásarmanna. Þar var eðlið vísindum ofar. “You ain't seen nothing yet” lauk forsetinn ræðu þann 5. maí 2005 í Walbrook klúbbnum í London, þar sem hann mærði fjárglæframenn íslands.

Það liðu margir áratugir frá því að Háskóli íslands var settur á laggirnar að fiskur var viðfangsefni þar á bæ. Fyrstu deildirnar voru við stofnun 1911 þessar: Guðfræðideild, Lagadeild, Læknadeild og Heimspekideild. Allt vissulega gott og mikið blessað. Það voru innritaðir 45 stúdentar. Atvinnudeild var stofnuð 1936 og nýtt hús atvinnudeildar reis 1937, en deildin varð aldrei hluti Háskólans og var flutt annað. Atvinnudeild var ætlað að sinna hagnýtum rannsóknum tengdum landbúnaði, sjávarútvegi og iðnaði. Slík starfsemi var kannski ofar skilningi íslensku akademíunnar á þeim tíma. En Háskólinn var samt sem áður stórt framfaraskref fyrir Íslendinga. 

Fiskifræði var enn ekki grein í Háskóla Íslands þegar ég lagði af stað út í hinn stóra heim til að læra fiskifræði. Það var laust fyrir 1970. Síldin búin og þorskurinn á niðurleið. Ég var háseti á togara. Um borð komu tveir fiskifræðingar að gera mælingar. Þeir stóðu á dekki og skráðu: Hængur 56, hrygna 62 og skáru kvarnir. Þetta var það næsta sem ég komst fiskifræðinni. Ég byrjaði reyndar í fiskifræði háskóla en svo lá mín leið í aðrar greinar, mest í félagsfræði, kennslu og menntamál.

NeskaupstaðurUm 1990 var ég skólameistari í Verkmenntaskóla Austurlands í Neskaupstað. Skólinn var í þróun og uppbyggingu og sinnti verkmenntun í fjórðungnum. Mér lá forvitni til að vita hvernig staðan menntunar var á Austurlandi. Ég hafði kynnst fræðimönnum sem vildu meina að þróun væri háð menntunarstigi, að forsendur þróunar í atvinnulífi og samfélagi væri tilvist þekkingar og þess að til staðar væri “krítískur massi” þekkingar, þ.e. nógu margir einstaklingar með töluvert mikla menntun í mörgum greinum. Ég fór á alla staði á Austurlandi, reyndi að skrá og kynna mér sem mest. Ég á þessu gögn enn í handriti á lausum blöðum.

Það var fátt um háskólamenntað fólk og enn færri háskólamenntaðir í atvinnulífinu, eins og það var kallað. Sumstaðar voru það presturinn, læknirinn og fáeinir kennarar, þeir einu með menntun á háskólastigi.  (Þetta var um 1990, ekki 1890!).

Í fiskvinnslunni, sem þá var allsráðandi var fátt um háskólagengið fólk. Í stærsta fyrirtæki fjórðungsins, með um 400 manns í vinnu á sjó og landi taldi ég tvo eða þrjá starfsmenn með háskólamenntun. Um borð í fiskiskipum var enginn sem hafði einhverja haldbæra menntun varðandi fisk sem matvæli. Þess var krafist að stjórnendur skips og vélar væru með réttindi og stundum var kokkurinn kokkur að mennt. Þetta er ekki nefnt til hnjóðs, þetta var svona og annað var ekkert sjálfsagt.
Þegar ég tók þetta upp til umræðu var sagt að það væru margir sem hefðu reynslu og kynnu nóg til þess að þetta hafi alltaf gengið vel. Þetta voru ríkjandi viðhorf, en viðhorf á undanhaldi, þó hægt fari.

Niðurstaða þessarar lauslegu könnunar minnar frá því laust eftir 1990 var sú að forsendur atvinnuþróunar væru varla fyrir hendi. Það vantaði þekkingu á svæðið. Einhver segir eflaust nú að það hafi aldeilis orðið þróun, álver og allt og fjöldinn allur af háskólamenntuðu fólki hefur nú vinnu við álverið og afleidd störf.

Auðvitað gerast ævintýr og álver en sú atvinnuþróun sem grundvallast á þeim auðlindum sem standa fólki næst - stóðu fólki næst - fór fyrir ofan garð.

Í dag er sjávarauðlindin enn raunverulega í sömu sporum og fyrr - öflun hráefnis fyrir markað sem mokar inn ágóða á reikninga í erlendum og duldum bönkum. Það hefur ekki orðið önnur þróun en sú að nú er aflinn sóttur á fullkomnari hátt og af sífellt færri sjómönnum sem fá hlutfallslega sífellt lægri hlut.

Á árum síldarinnar var Siglufjörður oft fullur af síldarbátum. Hundruðir báta og þúsundir sjómanna sóttu síld á miðin. Það var landað og farið út aftur. Siglufjörður síldarbátar

Í dag eru sjómenn á síldar/loðnu/makríl skipum örugglega miklu færri enn síldarbátarnir voru á sínum tíma, en aflinn er mörgum sinnum meiri. Hlutur hvers sjómanns er margfalt minni. Ég man þegar Börkur NK 122 (sá gamli sem keyptur var frá Paradis i Noregi) kom siglandi inn til hafnar í Neskaupstað með fullfermi, sem var meiri afli en venjulegur síldarbátur fyrri tíma náði að landa á heilli síldarvertíð. En þetta var bara einn túr.

Fiskveiðar á Íslandi ganga út á það sama og alltaf, að veiða og vinna hráefni til útflutnings. Erlendis er fiskurinn unnin í neytendaumbúðir, stundum í verksmiðjum sem íslenska útgerðin og vinnslan á, og send í verslanir. Sem sagt útgerðin greiðir lágmark til sjómanna, vinnslan greiðir lágmark til fiskvinnslufólks og stærsti hluti ágóðans er innheimtur erlendis.

Fiskur veiddur í Norður-Atlantshafi og frystur í blokk um borð í verksmiðjuskipi, fluttur til Kína, sagaður í bita, velt upp úr raspi, pakkaður í neytendaumbúðir og fluttur í verslanir í Evrópu (t.d. Noregs og Íslands) hefur glatað sakleysi sínu sem umhverfisvænn matur úr nálægu umhverfi.

Erum við á réttri leið?Tags Ísland sagan samfunn
Categories samfunn saga
Visninger: 796