Stutt saga um tunnu

 

Árið 1915 tók Dale Tønnefabrikk A/S til starfa í Dale í Dalsfjord á vesturströnd Noregs. Áratugum saman framleiddi verksmiðjan síldartunnur og seldi til Íslands. Það vantaði ekki að þeir Sunnfirðingar, en héraðið þarna heitir Sunnfjord, kynnu til verka við söltun síldar því mikið var saltað þar til útflutnings suður í Evrópu.

Hér væri upplagt að segja frá síldarævintýri Norðmanna frá því síðari hluta nítjándu aldar og langt fram á þá tuttugustu, en að því kemur síðar. Nefni bara að um þetta fjallar Hallgrímur Helgason á stórkostlegan hátt í bókum sínum um hin 60 kíló af sólskini og kjaftshöggum - og kemur vonandi meira.

Dale Tunnuverksmiðja sendi síðasta tunnufarminn til Íslands með flutningaskipinu Suðurland árið 1986. Það var kannski svolítill veltingur og blés af hafi þegar Suðurlandið sigldi út Dalsfjörðinn og ein tunnan var illa skorðuð og féll útbyrðis. Eins og allar tunnur voru báðir botnarnir þéttir og ekki hafði verið borað spons svo tunnan flaut. Bara nefna það í framhjáhlaupi að síldartunnur voru ekki með loki, þær voru með tveimur botnuDal Tønnefabrikk A/Sm.

Við Dalsfjörðinn, rétt utan við Dale er Hrífudalur. Þar bjó Ingólfur Arnarson sem ungur maður, áður en hann tók sig upp og sigldi vestur og nam land á Íslandi. Árið 1961 var reist afsteypa af styttu Ingólfs á Arnarhvoli í Hrífudal, gjöf til Norðmanna frá Íslendingum.

Um árabil hefur heiðursmaðurinn Petter Jonny Rivedal hirt um styttu Ingólfs og tekið á móti fjölmörgum gestum og ferðalöngum og upplýst um landnámsmanninn. Þetta hefur Petter Jonny gert af sömu hugsjón og þeirri sem fékk hann til að bjarga tómri síldartunnu sem fallið hafið af flutningaskipinu og varðveita hana í hartnær 40 ár í von um að eiga þess kost að skila henni, einn góðan veðurdag, alla leið til Íslands. 

Oft hefur verið á það minnst og svo fyrir nokkrum árum var ákveðið að setja verkefnið á laggirnar. Sendiherra Íslands í Noregi afhenti Petter Jonny þakkarbréf og boð um heimsókn til Íslands til að afhenda tunnuna góðu. Þá skall á fárið og talsverður undirbúningur fór í biðstöðu, en þegar tekið var til við verkefnið á ný voru allir tilbúnir.
Enda þótt tunnan sé tóm þá er hún í raun og veru full af táknrænni sögu um samskipti Norðmanna og Íslendinga um alla tíð. Þess vegna er mikilvægt að tunnan komist alla leið í hið stórkostlega Síldarminjasafn á Siglufirði. Og þar mun hún verða afhent af Petter Jonny, sem hirti hana úr fjöru og varðveitti til þess að hún kæmist alla leið. 


Hrífudalur er byggð í héraðinu Sunnfjord. Á margan hátt er þetta hérað eins og gluggi til vesturs, eins og Petter Jonny sagði við mig. Annar Sunnfirðingur sagði við mig að það hefðu verið Sunnfirðingar sem byggðu Ísland í öndverðu. Ég brosti með mér og hugsaði að þetta væri eins og Íslendingur að mæla, ekkert minna, ekkert dregið undan. 

Það voru Norðmenn sem kenndu Íslendingum að veiða og verka síld. Á árunum 1880 til 1886 fóru mörg skip yfir hafið frá Noregi til Íslands til að veiða og verka síld. Nefni hér að árið 1881 komu 187 skip með um 1800 sjómenn til veiða við Ísland. Það sköpuðust sterk tengsl á milli landanna og ekki síst milli einstakra staða á Íslandi og í Noregi. Þessi tengsl eru ekki úrkulnuð og lifa enn meðal fólks. 

Tunnan er nú komin til Íslands í boði Eimskip. Hún heldur síðan áfram för til Siglufjarðar á pallbíl frá Arctic Truck og tekið verður á móti Petter Jonny Rivedal og fjölskyldu á Sigló Hótel í boði hótelsins. Það eru síðan Sendiráð Íslands í Noregi og Sendiráð Noregs á Íslandi sem halda utan um verkefnið og það er síðan Síldarminjasafnið á Siglufirði sem sér um móttöku tunnunnar við athöfn þann 31. maí n.k. 


Tags Siglufjörður síld tunnan tunnan heim
Categories historie
Visninger: 725