Þórunn Guðmundsdóttir - Dúdda - 100 ára

 

Mamma á hundrað ára
afmæli 7. maí 2020


Okkur datt í hug að segja svolítið frá atvikum úr lífi okkar þegar við við bjuggum í verkamannabústaðnum að Hvanneyrarbraut 62. Þangað fluttu pabbi og mamma í nýja íbúð í kjallaranum og þar fæddist ég í janúar 1949 og Sigga Dísa í mars 1951. Það var ekkert auðvelt að eignast íbúð á árunum eftir seinni heimsstyrjöldina. Margir þurftu að búa við þröngan kost. Þegar Verkamannabústaðirnir við Hvanneyrarbraut voru teknir í notkun 1948 fengu 30 fjölskyldur húsnæði, alls um 130 manns. Við áttum heima í ysta bústaðnum, syðri enda í kjallara.

Það sem hér á eftir fylgir er alls engin söguleg úttekt, heldur nokkur atvik sem skjótast upp í hugann. Þess ber að gæta að við vorum krakkar og atvikin verða að skoðast í því ljósi. Það er líka vert að nefna að bæði við og aðrir krakkar voru að alla daga allan daginn. Það var hvorki sjónvarp né tölva, en bæði bækur og útvarp.

Verkamannabústaðirnir

Verkamannabústaðirnir við Hvanneyrarbraut

Abbi: Ríkisútvarpið var kannski ekki fyrir krakka alltaf, en stundum. Eftir hádegi var óskalagaþáttur sjómanna (kannski bara einu sinni í viku). Á góðviðrisdegi sátum við í garðinum hjá Elíasi og hlustuðum á þáttinn og þegar þátturinn var á enda tók Elías fram harmoníkuna og spilaði allan þáttinn fyrir okkur á ný. Við ákváðum einu sinni að gera okkur eitthvað meira úr þessu og buðum upp á veitingar. Við blönduðum saft og “drykk” (sem var duft með sykri sem varð að gosi þegar því var hellt í vatn) og skárum lakkrísbita sem við höfðum náð að kaupa í Kaupfélaginu í tvennt. Lakkrísinn seldum við á sama verði og einn heilann og svo tókum við það sama fyrir glas drykknum. Ekki urðum við ríkir af þessum viðskiptum, enda fáir viðskiptavinir með kaupgetu. Ég held að þetta hafi gerst í raun og veru. 
Við fluttum frá Hvanneyrarbrautinni upp á Hólaveg 1959, þá var ég 10 ára og Sigga Dísa 8 ára. Hvernig okkur reiddi af uppi í Reit verður að bíða sinni tíma sögu. 

Við sem þetta skrifum erum börn Dúddu og Einars.  Albert Guðmundur, nefndur eftir báðum öfum og Sigríður Þórdís, nefnd eftir báðum ömmum. Albert var alltaf kallaður Abbi og Sigríður Þórdís kölluð Sigga Dísa. Abbi er enn kallaður Abbi í íslensku fjölskyldunni og meðal gamalla og góðra vina, og þykir vænt um það. Sigga Dísa er enn Sigga Dísa innan fjöldkyldu enn annars Sigga. 
Abbi býr í Osló í Noregi og hefur búið þar í um 25 ár. Sigga Dísa býr á Húsavík (og Mývatnssveit) og hefur búið þar frá því hún lauk námi sem tónlistarkennari.

- Dúdda - eða Þórunn Guðmundsdóttir eins og hún hét

 


Þórunn Guðmundsdóttir, fædd í Hjarðardal í Önundarfirði 7. maí 1920. Foreldrar hennar voru Guðmundur Gilsson og Sigríður Hagalínsdóttir. Þórunn, eða Dúdda, eins og hún var ætíð kölluð, var ein af 10 systkinum. Mamma ólst upp í Önundarfirði og sótti svo Húsmæðraskólann á Laugalandi. Hún réði sig svo í vinnu á Gildaskálann á Siglufirði eitt sumar og hitti þá ungan pilt að vestan, sem hafði komið til Siglufjarðar til að fara í þriggja mánaða nám í bóklegum iðngreinum við Iðnskóla Siglufjarðar. Þau bjuggu síðan allan sinn búskap á Siglufirði - frá því um 1943. Pabbi lést 1998. Síðustu árin bjó mamma á dvalarheimilinu Hvammi á Húsavik. Hún lést 2011. 

 

Sigga Dísa og Abbi

Sigga Dísa og Abbi

Það er eins og það hafi gerst í gær

Abbi: Við lékum okkur oft á ganginum heima, ég og Fúsi. Það var dúkur á gólfinu, grænn með munstri. Það var gólflisti meðfram veggjum og veggirnir voru málaðir með munstri svona rúman meter upp á vegginn og þaðan og upp í loft voru veggirnir ljósgulir. Ég man þegar pabbi málaði munstrið neðst. Fyrst málaði hann vegginn með ljósri málningu. Hann notaði lakk eða olíumálningu. Svo þegar sú málning var farin að þorna málaði hann yfir með dekkri málningu og að mig minnir í fleiri litum og svo koma það sem gerði að ég man þetta. Hann rúllaði klósettpappír yfir og dró svo af og eftir sat þetta fína munstur á veggnum. Þegar veggurinn var þurr málaði hann einskonar borða efst og notaði dökku málninguna. Gangurinn var leiksvæði okkar Fúsa og þar stunduðum við kappakstur með miklum hávaða og skellum. Bílarnir voru eldhúskollar. Einfaldir kollar, ferhyrndir og með fótum sem gáfu gott tak. Þetta hljóta að hafa verið sterkir eldhúskollar sem þoldu árekstra, bæði við annan koll og veggina. Kollarnir voru, að framan, eða réttara væri að segja ofaná þar sem setið var þegar þeir voru notaðir til þess að sitja, klæddir þunnum dúk sem var límdur á. Svona dúkar voru oft límdir á hillur í eldhússkápum og líka hjá okkur í kjallaranum á Hvanneyrarbraut 62. Það gerðist ekki oft, en þó, að bílarnir hlutu skaða af. Til dæmis einu sinni varð áreksturinn svo harður að hornið á öðrum bílnum gekk inn í framhlið hins og það varð brestur og dúkurinn rifnaði. Mamma var að sýsla í eldhúsinu, sem hún gerði yfirleitt, ef hún ekki var úti að vinna eða inni á baði að hnýta net fyrir Jón táa, og kom í dyragættina. Kappaksturshljóðin voru þögnuð og við tveir sátum flötum beinum á gólfinu, þögnin var yfirgnæfandi. Æææ, fyrstu viðbrögð mömmu voru æææ og spurning í orðum eða svip hvort einhver hefði meitt sig. Þegar þeirri könnun var lokið og í ljós kom að það var bara eldhúskollurinn sem hafði látið á sjá sótti mamma tvær kleinur. Ég man ekki hvort kollurinn hafi verið setuhæfur eða hvort pabbi hafi einfaldlega skift um krossvið og límt nýja dúk á. Kappaksturinn hélt áfram á ganginum.
Þessi gangur er í minningunni bæði langur og breiður og gaf góða möguleika á að ná góðu viðbragði og ógnar hraða.

Síminn á ganginum

Einar M Albertsson ungur maður við Hlíðarveg 44 nýbyggðan
Einar M Albertsson ungur maður á Sigló

Abbi: Það var einn galli á. Pabbi vann hjá Pósti og Síma og fékk þess vegna símatæki heima áður en flestir aðrir fengu slík tæki. Síminn var staðsettur rétt innanvið forstofuna og því við endann á kappaksturbrautinni. Þar upp á vegg, brúnn og stór og með tólið hangandi í krók. Það lét hátt þegar síminn hringdi. Það að hafa síma áður en allir aðrir var mér aldrei mikils virði, og raunar var það mér til mikils ama. Oftar en ekki lá ég í bók, niðursokkinn, og spennan vaxandi. Hugurinn milli blaðsíðna. Síminn hringdi, mamma tók upp tólið og svaraði. Stundum svaraði hún bara 194 og stundum sagði hún bara halló. Hún vissi að stelpurnar á stöðinni vissu hvert þær hringdu og gáfu samband. Það voru ekki margir sem hringdu til okkar miðað við til allra annarra, þannig man ég það. Ég fékk það hlutverk að sækja aðra í símann. Stundum var það í sama inngangi eða innganginum við hliðina á, það er í númer 64, og stundum í húsunum í kring. Þegar svo sá eða sú sem beðið var um kom, það tók stundum svolítinn tíma, og tók upp tólið og byrjaði að tala við einhvern allt annars staðar reyndi mamma að loka eldhúshurðinni til að heyra ekki. Mamma sagði okkur skýrt að við ættum ekki að hlusta, bara loka eyrunum, þetta kæmi okkur ekkert við. Ég var ekki gamall en forvitnin var vakin, svona fyrir allan aldur. Hún hefur loðið við æ síðan. Mér fannst þetta símastúss samt vera mikil truflun á minni bókelsku friðhelgi, en mamma átti einhverja þjónustulund sem hún reyndi að innprenta okkur systkinunum og telja okkur trú um að ef fólk ynni saman myndi allt fara vel. Ég skyldi ekki hvað þetta kæmi símanum við og að það að hlaupa og ná í fólk í símann. 

 

Mamma var alltaf góð og glettin

Sigga Dísa: Ég á minningu um mömmu svo óendanlega góða og hlýja þar sem hún situr með mig 5 ára inni í stofu og rær með mig fram og aftur þar sem ég er með óbærilegan eyrnaverk. Hún gerði allt sem hún gat til að minnka verkinn og til að draga athyglina frá honum sagði hún mér sögur að vestan úr sveitinni hennar fallegu í Önundarfirði. Hjarðardalurinn, það var nú meira töfralandið ! Þau krakkarnir 10 renndu sér á skíðum niður dalinn öðru megin og svo upp hinum meginn í hlíðinni þar sem þau hoppuðu bara upp, snéru sér í loftinu og renndu sér svo niður aftur og svona endalust allan daginn. Mikið langaði mig að komast í þennan dal á tunnustöfunum mínum og renna mér svona endalaust. Eyrnaverkurinn gleymdist smástund og við mamma horfðum brosandi hvor á aðra.

 

Óttinn við fjörulalla

Abbi: Annað var það líka. Uppi hjá okkur í númer 62 bjuggu stelpur sem líka þurftu að leggja húsverkum lið, meðal annars að fara út með rusl í öskutunnuna. Orðið ruslatunna er seinni tíma orð, hjá okkur var það öskutunna og þeir sem sáu um að tæma tunnurnar voru kallaðir öskukallar. En stelpunum var það um og ó að fara með ruslið út í tunnu á kvöldin. Þá var bankað á hjá okkur og beðið um fylgd og það var mitt hlutverk at fylgja. Á vetrum, í hríð og norðan garra, varð ég að klæða mið í úlpu og útiskó, þó ekki væri lengra að fara enn þessa fáu metra niður að tunnu. Það var ekki nóg að standa í dyrunum á snyrtiherberginu, en svo kallaðist herbergið sem gengið var inn í í kjallaranum. Reyndar var ekki öllu rusli hent í öskutunnuna. Við sorteruðum nefnilega. Flestir  matarafgangar voru settir í sérstakan dall og einhvertíma um áttaleitið kom Frissi og sótti afgangana. Hann var með rollur og bjó til rollumat úr þessu. Ég hugsaði stundum um það hvernig rollurnar færu að því að borða öll fiskbeinin, en roð og kartöfluskrall var skiljanlegra.

 

Þvottahúsið á loftinu

Mamma í dyrumum á nýbyggðum verkamannabústaðnum

Mamma í dyrumum á nýbyggðum verkamannabústaðnum

Abbi: Mamma þvoði þvotta uppi á háalofti, þar var þvottahúsið. Það var reyndar mjög gott rými uppi á lofti. Stórt þurrkloft og að mig minnir gott pláss í þvottahúsinu. Þarna var þvottavélin, stór og voldug með rúlluvindu. Ég veit ekki hvort þvottavélin hitaði vatnið sjálf eða hvort mamma og hinar konurnar þurftu að láta heitt vatn renna í vélina. Ofaní þvottavélinni voru einskonar spaðar og upp frá þeim stóð stautur, sem náði upp úr vatninu. Spaðarnir gengu fram og tilbaka, fóru ekki í hring, og stauturinn líka. ég fékk að standa á stól við vélina og halda hendi ofan á stautnum, sem þá var votur af sápuvatni og sleipur. Hreyfingin skapaði sérstaka tilfinningu, eitthvað eilífðar nudd. Þarna gat ég staðið lengi og passað upp á þvottinn meðan mamma sýslaði með annað, hengdi upp eða tók niður þvott og braut saman.
Seinna, þegar mamma vann í þvottahúsinu á Sjúkrahúsinu og fékk mig til að koma og hjálpa sér að brjóta saman, lærði ég að brjóta saman þvott, handklæði, rúmföt, skyrtur og sloppa. Það var ekki sama hvernig brotið var, þetta var eins og handverk. Enn þann dag í dag bý ég að þessu og hef gaman af að brjóta saman þvott. 

 

Háir ullarsokkar

Sigga Dísa: Þær sitja við eldhúsborðið með kaffið sitt mamma og Heiða af efri hæðinni. Ég er 5 eða 6 ára. Mér finnst notalegt að dunda mér hjá þeim og hlusta á þær masa saman í rólegheitunum, en svo verð ég óróleg þegar ég heyri þær minnast á ullarsokkana sem þær voru að koma með frá prjónakonunni. Þær dásama hvað það sé gott fyrir okkur stelpurnar að fá svona hlýja og góða sokka fyrir veturinn. Það var komið haust og það þýddi að bráðum yrði ég að skipta út brúnu bómullarsokkunum sem ég var í allt sumarið fyrir nýja ullarsokka. Bómullarsokkarnir voru mjúkir og góðir en ég hataði NÝJA ullarsokka því þeir voru svo hryllilega snarpir og stingulegir, ég var öll á iði þegar ég var í þeim, ég fékk gæsahúð og mér varð kalt þegar ég dró þá upp á lærin og hneppti þeim við kotið mitt. Ég yfirgef þær stöllur og fer inn í svefnherbergi og sé þar liggja þrjú ný pör af háum ullarsokkum ætluðum mér. Ég vissi að það myndi taka marga mánuði fyrir ullina að mýkjast þannig að ég þyldi við í þessum hræðilegu sokkum. HRYLLINGUR ! Mamma sagði mér seinna að það hefði liðið dágóð stund þar til hún fór að athuga um mig þar sem ekkert hafði heyrst í mér, að hún kom að mér þar sem ég var búin að finna skæri og var að enda við að sarga í sundur síðasta sokkinn. Mömmu brá og varð reið, en eins og alltaf var hún samt góð og skilningsrík og fannst að ég hefði gert það mjög ljóst að ég hvorki vildi né þyldi ullarsokkana “góðu”.

 

Kjallaraíbúðin og næstumþví slys

Mamma og Sigga Dísa í eldhúsglugganum
Mamma og Sigga Dísa í eldhúsglugganum

Abbi: Íbúðin okkar á Hvanneyrarbraut 62 var ekki stór. Eitt svefnherbergi, eldhús og stofa, og svo auðvitað baðið, búrið og gangurinn. Stofan var alltaf lokuð og alls ekki til að leika sér í, mamma vildi hafa einn friðsælan reit í íbúðinni. Pabbi og mamma réðu svefnherberginu. Ég og Sigga Dísa vorum þar fyrstu árin. Hún er tveimur árum yngri en ég. Ég fæddist í janúar, nógu lengi eftir jól til að það var ekki hægt að rugla saman jólagjöfum og afmælisgjöfum, en það stutt frá jólum til að það var enn mikið af kökum og góðgæti. Ég var sem sagt janúarbarn og alltaf elstur í árganginum en samtímis alltaf sá minnsti. Ég var trítli. Sigga Dísa fæddist í mars og var strax dúðuð og pakkað inn í gæru. Þannig man ég hana. Við áttum sparksleða. Á sætið á sparksleðanum var fest barnasæti, rúmgóður kassi bogalagaður sem í var settur gærupoki. Barnið var svo sett í gærupokann, dúðað og vel skorðað. Þarna var Sigga Dísa, dúðuð í gærupoka á sparksleðanum, sem ég hafði mikla löngun til að renna mér á. Mamma hafði sett sparksleðann með Siggu Dísu, dúðaðri, undir eldhúsgluggann svo hún heyrði til hennar. En mamma brá sér fra, sett upp kaffi eða eitthvað slíkt, en nóg til að ég sá mér færi til að taka sparksleðann traustataki. Með báðar hendur um sleðann og litla fætur sem tifuðu og náðu sleðanum á ferð hófst ferð sem hefði getað farið illa. Fram undan verkamannabústaðnum hallaðist túnið niður á við og endaði í háum bakka ofan við stórgrýtta fjöruna. Ég náði sleðanum á allgóða ferð niður túnið og fram af bakkanum. Sem betur fer var hraðinn nógur til að sleðinn með Siggu Dísu, vel dúðaðri, flaug yfir stórgrýtið og lenti í flæðarmálinu og skorðaðist milli stórra steina. Ég rúllaði niður og stöðvaðist efst í fjörunni. Þennan dag var veður gott og margir gluggar í eldhúsum opnir og fleiri en ein húsmóðir sáu ferðalagið og hróp og óp glumdu. Mamma og fleiri mömmur komu aðvífandi og sóttu okkur ósködduð. Sigga Dísa bjargaðist fyrir hvað hún var vel dúðuð í kassanum og ég fyrir hvað ég var lítill og dreif ekki einu sinni út í grjótið.

Sparksleðinn var mikið þarfaþing. Þó það sé ekki hægt að tala um að spila á sparksleða þá var það mikil upplifun fyrir Siggu Dísu að hlusta á hljóðfallið í meiðunum og taktinn þegar sparkað var. Þetta var sérstaklega þegar snjórinn var þurr og það var frost og þá marraði og söng í ískristöllum.

 

Meira pláss úr litlu plássi

Abbi: Ég var að segja fra íbúðinni okkar. Eftir að við Sigga Dísa voru orðin það gömul að við þyrftum meira pláss tóku pabbi og mamma upp á því að innrétta svefnherbergi fyrir okkur í búrinu, sem var innaf eldhúsinu. Hillurnar sem geymdu mat og dót voru teknar niður og inn voru settar tvær kojur. Búrið var heldur mjótt og því sköguðu kojurnar langt inn í dyraopið inn í eldhúsið. Kojurnar voru samt nógu breiðar fyrir okkur krakkana og þetta var nú aldeilis munur. Hillurnar voru svo settar upp í geymslunni undir tröppunum. Þetta var lítil kompa sem eiginlega var ekki neitt, og varla hægt að standa uppréttur nema við dyrnar, en pabbi notaði kompuna samt sem verkstæði, eða þannig. Allar íbúðirnar uppi höfðu geymsluherbergi niðri í kjallara.

Abbi og Viðir

Abbi og Víðir fyrir neðan hús

Það er kannski rétt að upplýsa að kjallarinn var bara niðurgrafinn upp að götunni, en sjávarmegin var hann ekki niðurgrafinn. Sumar geymslur voru því með góðum gluggum sem sneru út að firðinum og voru fljótlega gerðar að vistarverum. Okkar geymsla var bara kompa undir stiganum.
Þegar inn var komið í íbúðina okkar var komið í forstofu. Forstofan var ekki stór en þar var gert ráð fyrir fatahengi. Pabbi var alltaf skrifandi eitthvað og sýslaði mikið með pappíra og skjöl. Hann átti líka ritvél, svarta gljáandi ritvél, og skrifaði með öllum fingrum á ritvélina. Ég man að ég fékk stundum að horfa á hann skrifa og þótti gaman. En það var ekkert pláss fyrir ritstörf í íbúðinni, svo pabbi tók til sinna ráða og útbjó sér skrifstofu þar sem fatahengið var. Hann sló upp þunnum vegg sem lokaði af skrifstofuna og útbjó einskonar rennihurð sem hann gat dregið fyrir þegar við átti. Innst í skrifstofunni var borð eða bekkur og yfir honum einar tvær hillur. Bekkurinn var ekki breiðari en sem svo að þegar ritvélin stóð á bekknum var pláss fyrir skrifblokk við hliðina. Það voru svolitlar tilfæringar að koma sér fyrir. Fyrst þurfti að færa stólinn lengst aftur og síðan að koma sér inn og aka sér síðan á stólnum að bekknum og ritvélinni. Þarna inni sat pabbi á kvöldin og skrifaði, eða þegar hann ekki var á einhverjum fundum niðri í bæ. Ég átti eftir að kynnast því betur að mamma og pabbi voru virkir þátttakendur í verkalýðsfélögum og pólitík.

 

Berjatínsla 

Abbi: Mamma og pabbi voru mjög áhugasöm um að draga björg í bú. Eitt af þessu var berjatínsla á haustin. Þá var farið víða og oft yfirum og inn í Skútudal eða Hólsdal og jafnvel alla leið út að vita. Skarðsdalurinn var líka mikið berjasvæði. Það var mikil samkeppni um tínsluna og oft margt um manninn í brekkum og lautum. Mamma var sérstaklega iðin við tínsluna og

Pabbi og mamma Pabbi og mamma

reyndi að hvetja okkur krakkana til dáða. Lengi var ég mest upptekinn af að tína upp í mig. Seinna varð ég að leggja mitt af mörkum. Eitt skifti var ég orðinn leiður og sá að það fylltist seint og tók til bragðs að hálffylla ílátið með ágætlega vel þurrum lambaspörðum og setja berin síðan yfir. Þarna stóð svo fatan mín full og ég fékk hrós fyrir dugnaðinn, en inni í mér gekk á með skúrum, því upp komast svik um síðir. Ég var sem sagt ekki lengi í sólargeislum. En í því að mamma tók fötuna mína og ætlaði að hella yfir í stórt ílát og ég sá fyrir mér lambaspörðin innanum öll berin, brást ég við og þreif fötuna mína og neitaði að láta blanda mínum berjum saman við annarra ber. Ég ætlaði sjálfur að bera mín ber alla leið heim. Þegar heim var komið var ekki lengur hægt að dylja svikin ber. Ég var reyndar ekki meira en fimm eða sex ára og stóð ekki undir skömmum, og það vissi mamma vel og líka að þær skammir sem virkuðu best var að gera gott úr öllu. Þess vegna fengum við bláber og rjóma í eftirrétt þetta kvöldið. 

 

Að draga björg í bú

Abbi: Það var alltaf til matur heima, en það var stundum lítið. Stundum var enga vinnu að hafa og lítið kaup. Síldarleysið sagði til sín. Ég hafði örugglega heyrt tal um að skaffa mat. Það kom fyrir að ég kom við í íshúsinu á leiðinni heim úr skólanum og skar gellur í matinn. Það var fátt um umbúðir til að setja gellurnar í svo oftast varð skólataskan að duga. Það kom fyrir að ég gat pakkað gellunum inn í biblíusögupróf eða reikningsblað. Skólataskan var oft löðrandi þegar heim kom. Þessi skólataska er úr leðri, einföld og vel gerð úr hendi pabba, skósmiðsins, og er nú í eigu nafna hans, Einars Albertssonar. Það sést enn vel að taskan hefur verið notuð til bera annað en bækur og skóladót.

Siglufjörður -

Siglufjörður ofan úr Hvanneyrarskál

Eitt vor, minnir mig, var ég á flækingi út á öldubrjót og þar var þá verið að skera hrefnu. Ég fór að horfa á og þá spurði mig maður hvort ég vildi kannski fá svolítið kjöt, svona afskurð. Ég þakkaði pent fyrir og maðurinn bað mig að setja fram hendurnar og lagði síðan tvö kjötstykki í fangið. Með kjötið, alblóðugt í fanginu, gekk ég sem leið liggur út í bakka og heim. Mamma var heima og tók á móti mér. Stoltur lagði ég feng minn í vaskinn og man enn gleðina yfir að geta dregið björg í bú svo um munaði. Mamma var kannski meira með hugann við allt blóðið í fötunum, sem hafði lekið niður buxur og ofaní gúmmískóna. 

 

Miðstöðin

Það voru margar dyr á ganginum þar sem gengið var inn hjá okkur. Fjórar voru inn í geymslur sem íbúðirnar uppi áttu og ein inn í snyrtiherbergið og svo voru einar dyr inn í miðstöðvarherbergið. Okkur stóð stuggur af þessu herbergi, það var alltaf einhver hávaði eða hvinur þarna inni, einhver skepna sem masaði og hvæsti. Það þurfti öðru hvoru að fara þarna inn og ef maður kíkti inn þá kom hitasvækja á móti í viðbót við hávaðann. Þarna var miðstöðin sem hitaði upp allar íbúðirnar. 

 

Frosin tunga 

Abbi: Eitt af því skemmtilega sem ég gerði með mömmu var að fara niður í íshús og inn í frystigeymslu til að ná í frosinn mat. Við áttum ekki frystiskáp eða frystikistu en pabbi og mamma, eins og svo margir aðrir, leigðu pláss í frystinum í íshúsinu og settu þangað mat til geymslu. Ég var ekkert sérstaklega upptekinn af matnum í frystigeymslunni heldur var það mikil upplifun að fara úr hitanum

Abbi með skófluna sína Abbi með skófluna sína fyrir neðan hús

fyrir utan og inn í ískulda inni. Mamma hafði meðferðis bæði vettlinga og húfu á okkur, svo okkur yrði ekki kalt á höfðinu og eyrunum. Maturinn var geymdur í hólfum sem voru lokuð með með lás. Reyndar voru þetta ekki almennilegir veggir heldur grind með hænsnaneti á svo það sást inn í hólfin. Lásinn okkar var stór og þungur, kannski voru litlir lásar óheppilegir í miklu frosti, dótið inn í lásnum hætti til að frjósa. Enda þótt ég kynni alls ekkert í eðlisfræði þá hafði ég reynslu af að ef maður setti blauta tunguna á eitthvað úr málmi í frosti þá fraus tungan föst. Eitt sinn þegar mamma hafði opnað lásinn á hólfinu og hengt í hænsnanetið við hliðina á opinu setti ég tunguna á lásinn og fraus fastur. Ég fattaði kannski ekki að frostið í frystiklefa er mikli meira en venjulegt frost úti og þurrara loft,   svo það hafði ekkert að segja að ég reyndi að væta tunguna. Ekki gat ég sagt neitt og ég fór að hugsa um eitthvert ævintýri sem ég hafði heyrt um kall eða kellingu sem hafði fengið bjúga fast á nefið. Hvort það var fyrri reynsla (þó stutt væri því ég var ekki gamall þegar þetta átti sér stað) eða ósjálfrátt viðbragð sem gerði að ég tók af mér vettlingana og lagði báðar hendur fyrir munn og nef og lás og andaði og blés af öllum mætti. Ég fann að tungan fór að losna og blés enn meira. Um það bil sem lásinn var laus sá ég að mamma horfði á mig og skildi greinilega ekkert hvað ég var að bauka. En svo þegar hún sá hvað var á seyði og að ég var heill á húfi og lásinn óskemmdur gat hún ekki annað en hlegið góðum hlátri. Mér var ekki hlátur í hug, en það var oftar styttra í hlátur og góðvild hjá mömmu en skammir.

 

Ljósalampinn í barnaskólanum, kollur og svörtu gleraugun Ljósalampinn í barnaskólanum, kollur og svörtu gleraugun. Allir krakka fengu sól á kroppinn

Vorskólinn

Sigga Dísa: Fyrsta skólaárið mitt hófst að vori með stuttum “Vorskóla” Áður en við byrjuðum þar þurfti að skrá okkur inn í skólann og prófa lestrarkunnáttu okkar. Nokkrir krakkanna höfðu reyndar verið í smábarnaskóla hjá Valey eða fröken Arnfinnu veturinn áður og lært þar að lesa og skrifa. Ég hafði ekki verið í þeim skóla og ekki sýnt minnsta áhuga á að læra að lesa, en þekkti örfáa stafi er hér var komið sögu. Mamma leiddi mig inn á ganginn í skólanum þar sem margir krakkar sátu og biðu með mömmunum sínum eftir að vera kölluð í lestrarprufu.Tveir kennarar voru að prófa. Abbi bróðir sem er 2 árum eldri en ég hafði sagt mér að Sæmundur kennari væri góður en Hlöðver skólastjóri væri strangur, svo ég var alveg ákveðin í að ég vildi fara inn til Sæmundar. Dyrnar opnuðust og Hlöðver kom ábúðarfullur fram á ganginn og kallaði næsti ! Enginn hreyfði sig, öll hin börnin voru greinilega líka að bíða eftir Sæmundi góða. Næsti ! kallaði Hlöðver og mamma byrjaði að draga mig í áttina að honum. Ég streyttist á móti, en mamma sagði:" Svona elskan, ekki láta kjánalega “ enda hafði hún ekkert nema góða reynslu af samskiptum sínum við öðlinginn Hlöðver þar sem hún skúraði daglega í skólanum hans. Við mamma settumst saman framan við skrifborðið hans Hlöðvers. Hann spyr mig hvað ég heiti, ekkert svar. Hann spyr mig hvað ég sé gömul, ekkert svar. Hann spyr hvar ég eigi heima, ekkert svar. Ég var fúl og vonsvikin yfir að fá ekki að fara til Sæmundar. Hlöðver rétti mér blað með bókstöfum á og bað mig að stafa fyrir sig. Mamma sagði að ég hefði stafað þá örfáu stafi sem ég kunni en Hlöðver áleit að ég væri ennþá í mótmælahamnum og vildi bara ekki stafa neitt fyrir hann og ályktaði sem svo að ef ég líktist eitthvað bróður mínum sem hafði fljótt orðið fluglæs þá væri ég trúlega alveg meððetta ! Ég var sett í A bekkinn þar sem allir voru orðnir læsir nema ég. Úps ! þetta fór alveg með yndisstundir vorsins, bæði fyrir mig og mömmu. Á hverjum degi alla daga sat mamma með mér - ég oftast hágrenjandi - og kenndi mér stafina og að lesa fyrstu blaðsíðurnar í Gagn og gaman. Mamma var fyrst og fremst góð, góð og þolinmóð og árangurinn skilaði sér í sigurvímu hjá mér þegar ég gat lesið án þess að hika:

Sísí segir s s s
s s segir Sísí
Sísí segir so so
so so so segir Sísi.

Fröken Arnfinna sem kenndi mér þessa vordaga hafði trúlega heyrt meiri snilld í kennslustofunni, en lét þetta þó gott heita og við mamma urðum bjartsýnni á skólagöngu mína.

 

Að læra leikfimi

Abbi: Mamma skúraði í skólanum. Skúringarnar fóru fram eftir að skólinn var búinn á daginn, en oft var kennt langt fram eftir degi. Til þess að létt undir og fá mömmu fyrr heim hjálpuðum við systkinin mömmu stundum við ræstingarnar. Við settum stólana upp á borð, tæmdum ruslaföturnar í stofunum og þurrkuðum af töflum. Þetta voru auðveld verk en léttu undir. Svo var bara að bíða eftir að mamma kláraði. Ég hljóp þá oft niður í leikfimisal og sat í áhaldageymslunni og horfði á leikfimi. Það voru oft strákar úr gagganum og Helgi Sveins kennari, en stundum stelpur og Regína kennari. Það var mikil skemmtun að horfa á og ég lærði fljótt allar æfingar og lagði vel á mig það sem Helgi sagði þegar hann leiðbeindi strákunum. Seinna þegar kom að því að við áttum að gera sömu æfingar þá kunni ég þær. Oftar en ekki hrópaði Helgi á mig - Abbó, gerðu æfinguna og sýndu þeim! Þetta var mikill heiður fyrir mig því ég var alltaf sá minnsti, en þarna var ég “stór”. 

 

Netagerðin á baðinu

Abbi: Mamma tók reglulega að sér verkefni fyrir netagerðina. Hún hnýtti net sem síðan voru sett saman í troll. Þetta voru vísindi sem ég fékk að vita en skildi ekki fyrr en löngu síðar. Mamma hnýtti netin inni á baði, inni í sturtunni. Þar stóð hún og hnýtti löngum stundum. Til að létta undir þurfti ég að þræða nálar, en það var tímafrekt og hundleiðinlegt og tók eiginlega aldrei enda. Mamma batt endann í nálinni við endann í netinu og hélt áfram að hnýta, möskva eftir möskva. Allir möskvar urðu að vera jafnstórir og af réttri stærð. Til þess hafði mamma einhverskonar mál, kubb eða hólk, sem hún vafði garnið um. Þetta er farið að mást úr minningunni, en netin og lyktin á baðinu eru enn þar. Þetta var ekki eina handavinnan, mamma prjónaði endalaust. Ég klæddist ullarfötum innst sem yst og man ekki eftir öðru. Peysur og sokkar, vettlingar og húfur.

 

Þegar Abbi gerðist þjófur

Abbi: Ég var sólginn í sætindi. En sætindi vor samt ekki á borðum hjá okkur, né öðrum sem við þekktum, hvunndags. Það kom fyrir að við fengum pönnukökur með sykri eða kanelsnúð. Nammi eða gotterí var framandi, en við vissum að það var hægt að kaupa gott í kaupfélaginu. Eitt sinn, ég var líklega fimm ára, klifraði ég upp í eldhússkáp og sótti einhverjar krónur í krús þar sem mamma geymdi einhverja peninga. Mamma kom í eldhúsið og sá að skúffurnar voru dregnar út og mynduðu þrep upp á eldhúsbekkinn og skáphurðir voru opnar og krúsin með peningum beint fyrir augum.

Kökuskápurinn í Kaupfélagsbakaríinu við Hvanneyrarbraut

Kökuskápurinn í Kaupfélagsbakaríinu við Hvanneyrarbraut

Mamma skildi strax hvað var að gerast. Nú var gott að hafa síma. Mamma hringdi í kaupfélagið og Óli Geir svaraði. Mamma skýrði málavexti og Óli Geir tók því vel. Þegar ég kom í kaupfélagið og stóð í allri minni stuttu hæð fyrir framan búðarborðið og lagði fjárfúlguna á borðið og bað um gott fyrir alla peningana, svarað ábúðarfullur búðarmaðurinn Óli Geir: Ætlar þú að fá gott fyrir alla peningana? Ég: Já alla. Óli Geir: Eru þetta þínir peningar? Ég: Já. Óli Geir: Ertu nú alveg viss? Ég: Já. Óli Geir: Heyrðu, nú þarf ég að sjá tunguna þína, hvort þú sért að segja satt. Sýndu mér tunguna. Ég ýtti tungubroddi örlítið út. Óli Geir: Má ég fá að sjá alla tunguna. Ég ýtti nú allri tungunni út og sá nú að draumurinn um gottið var að bresta. Óli Geir: Ég sé nú að þú hefur tekið peningana frá mömmu þinni, það sést vel. Nú skaltu flýta þér heim og skila peningunum til mömmu þinnar.
Þau voru þung skrefin heim til mömmu, og eftir smá grát og fyrirgefningu var þessi viðburður geymdur en ekki gleymdur. 

 

Abbi og Sigga Dísa

Abbi og Sigga Dísa

Fólkið í númer 62

Abbi: Það var alltaf mikill samgangur milli hæða í númer 62. Við krakkarnir lékum okkur saman og aldursmunur skifti ekki alltaf máli, en þó. Þeir fullorðnu hittust yfir kaffibolla og spjölluðu.
Það var yndislegt fólk í númer 62. Uppi voru Addi og Heiða og krakkarnir, Mumma, Nonni, Malla og svo fæddist Siggi eftir að við fluttum upp á Hólaveg. Þau voru að vestan eins og við og Heiða úr Álftafirði eins og pabbi og frænka okkar og Addi úr Hnífsdal. Hinum megin bjó Hanni bílstjóri og foreldrar hans, en þau voru þá orðin eldra fólk sem við sem krakkar vissum lítið af. Efst uppi bjuggu Óli múrari og Júlla Magga og Addi Óla og Sigga Júllu Möggu. Hinum megin bjuggu Gústa og Eggert og Víðir og Friðrik, en Friðrik var orðinn unglingur og ef hann var heima þá svaf hann allan daginn, en við Víðir lékum okkur saman. Númer 62 var kannski alveg eins og hinir endarnir í bústöðunum, þar bjó fólk sem var alltaf að vinna, þar voru mömmur sem voru heima og áttu kökur eða eitthvað gott að bíta í, þar voru alltof fá herbergi fyrir marga krakka. Ein smájátning fylgir hér. Hurðarhúnar inn í íbúðirnar voru með svörtu haldi. Við Víðir, minnir mig, sóttum eitt kvöld dollu með skósvertu og smurðum á höldin. Ég heyrði um þetta rætt - að svona ætti ekki að líðast og svo framvegis. Ég er sammála því núna, en þetta var skemmtilegt þá. 

 

Sögur af handahófi

Abbi: Þetta eru sögur valdar af handahófi. Það var margt sem gerðist út í bakka, í verkamannabústöðunum, uppi í fjalli og niðri í fjöru. Kannski koma fleiri sögur, t.d. um það þegar við héldum hljómleika í snjóhúsi og það var skrifað um það í dagblaði, eða þegar ég hafði smurt hárið mitt með talsverðu magni af brilliantíni og Nonni sagði að ég yrði sköllóttur og hljóp með vel smurt hárið niður í bæ að leita að bjargvættinum, mömmu. Það er líka til frásögu þegar ég fiktaði með eldspítur og kveikti í sinu niðri í bakka þar sem hráolían frá tönkunum lak út og það varð stórt bál, eða .egar við stálum káli og ýmsu grænmeti frá Bethke og hann kom heim til að ná í kálið af því einhver kjaftaði, eða þegar ég (4 ára) bankaði á dyrnar hja konu og stóru strákarnir stóðu á dyrapallinum á hæðinni fyrir ofan með vatn í bréfpokum og létu vaða, eða þegar Fúsi kom hlaupandi fyrir hornið á miðbústaðnum með indjánaspjót í bakinu, eða þegar ... o.s.frv.

Örfáar myndir til gamans

Albert, Einar, albert, Einar - og svo er kominn enn einn Albert

Fjórar kynslóðir - Albert og Einar, vantar bara yngsta Albert sem nú er 13 ára.

Gamla sjúkrahúsið

Gamla sjúkrahúsið. Þar vann mamma í þvottahúsinu í mörg ár. Þvottahúsið var í litla hvíta húsinu við endann á sjúkrahúsinu.

SR 46 í byggingu - pabbi fyrir miðju

Pabbi vann ýmsa verkamannavinnu eftir að hann kom til Siglufjarðar, m.a. við byggingu SR 46. Hann var skósmiður að mennt og vann síðan á skóverkstæði ásamt Jíni Hjálmarssyni, mági sínum og Sigurbirni K Stefánssyni, sem gaf út ljóðabókina Skóhljóð handritaða. Það var mikið um ljóðaþ og vísnagerð á verkstæðinu. 

Síldarsöltun hjá Olav Hendriksen Siglufjörður

Síldarsöltun á planinu hjá Óla Hinriks (hét eiginlega Olav Hendriksen, en mamma sagði alltaf Óli Hinriks), pabbi horfir á virðist vera með gesti í heimsókn og sýnir þeim söltun. 

Pabbi með Abba niðri á Hafnarvryggju við komu Gullfoss til Siglufjarðar. Veit ekki tilefnið og tel að þetta sé örugglega Gullfoss.

 

Albert við vinnu sína í SR frystihúsi

Mér finns rétt að láta eina mynd af öðlingnum honum afa fylgja hér. Þarna er hann við starf sitt í frystihúsi SR, þar sem hann sá um að merkja umbúðir. Hann lagði metnað sinn í starfið og merkti aldrei fleiri kassa en það var fiskur til í frystitækjunum. Hann vann hjá SR í marga áratugi, í SR 46 á sumrin og SR frystihúsinu á vetrum. Afi flutti með fjölskyldu sína til Siglufjarðar frá Hellissandi á stríðsárunum - þau sem komu voru auk afa og ömmu, Ásgrímur, pabbi, tvíburarnir Rúna og Gréta og Sigga. 

Dísa, Anna og Sigga Dísa

Það var mikið tónlistarlíf í fjölskyldunni og flestir spiluðu á eitthvað. Þessar þrjár frænkur á fiðlur - Þórdís og Anna Rögnvalds og Sigga Dísa. 

 

Það var alltaf margt barna á bökkunum og ekki síst í verkamannabústöðumum. Ekki man ég hver börnin á myndinni eru, en ég er þessi með skófluna. 

 

 



Tags familien mamma 100
Categories familien
Visninger: 2572